Allt frá opnun Húss sjávarklasans á haustmánuðum 2012 hefur frumkvöðlum sem eru á fyrstu stigum þess að hefja rekstur gefist kostur á að leigja aðstöðu í frumkvöðlasetri hússins. Þeim býðst þá að leigja skrifborð fyrir lágt verð og fá aðgang að fundarherbergjum og öðrum kosti hússins, að ógleymdum félagsskapnum og aðgenginu að öðrum frumkvöðlum og öflugum fyrirtækjum í húsinu og í netverki klasans.
Við aðra stækkun hússins í ársbyrjun 2015 bættist svo við annað frumkvöðlasetur. Í þessum tveimur rýmum eru nú alls 17 fyrirtæki með aðstöðu, sum þeirra eru á undirbúningsstigi, önnur með vörur og þjónustu á markaði og enn önnur með starfsemi annars staðar á landinu en skrifstofu- og fundaraðstöðu hér.
Fjölbreytnin í starfsemi fyrirtækjanna er mikil. Allt frá þróun afurða úr harðfiski, þróun fiskiolía úr uppsjávarfiski og heilsuefna úr fiskiroði, lyfjaþróun úr plöntum og þörungum og yfir í haftengda ferðaþjónustu og ýmis konar hugbúnaðarþróun og ráðgjöf.
Frumkvöðlasetur Húss sjávarklasans eru styrkt af Brim, Eimskipi, Icelandair Cargo og Mannviti. Við erum þeim afar þakklát fyrir stuðning undanfarinna ára en á þessum stutta tíma höfum við þegar séð nokkur fyrirtæki sem setjast að í frumkvöðlasetrunum fljúga úr hreiðrinu í stærra húsnæði, meðal annars með því að gerast almennir leigjendur hér í húsinu.