Í þessum kafla er fjallað um helstu stofnanir er sinna menntun og þjálfun fyrir þær atvinnugreinar er falla undir sjávarklasann og þær stofnanir og fyrirtæki er sinna rannsóknum öðrum en þeim er fallið geta undir reglubundið eftirlit og vöktun. Einnig er aðeins fjallað um hvernig er búið að rannsóknastarfsemi hér á landi. Í tengslum við mörg af þeim fyrirtækjum sem starfa innan sjávaklasans er unnið viðamikið rannsóknastarf. Hér er átt við fyrirtæki eins og þau sem eru að þróa tæki og búnað fyrir sjávarútveg og fiskvinnslu og einnig fyrirtæki sem vinna að rannsóknum í tengslum við fiskeldi og líftækni en sum þeirra eru enn sem komið er fyrst og fremst rannsóknafyrirtæki þar sem viðskipti með eiginlega vöru eru í raun ekki hafin. Hér munum við þó síður beina sjónum okkar að þeirri starfsemi, en fremur að því hvernig rannsókna- og menntasamfélagið styður við þau fyrirtæki og eins er markmiðið að vekja athygli á öllum þeim ónýttu möguleikum sem er að finna í tengslum við rannsóknir á hafinu.

Staðan á Íslandi

Fjölmargar stofnanir koma að rannsóknum á hafinu og lífríki þess hér við land og eru þessar rannsóknir mismikill hluti af starfsemi þeirra. Meðal þeirra stofnana er t.d. Siglingastofnun, Orkustofnun sem hefur komið að rannsóknum í tengslum við auðlindir á og undir hafsbotninum, Veðurstofan sem annast rannsóknir á hafsvæðinu, veðurfari og áhrifum hafstrauma á það og nokkur sjálfstæð rannsókna­setur sem starfrækt eru í kringum landið. Einnig hafa Háskólarnir HÍ og HA komið að rannsóknum í hafinu, en þær tvær stofnanir sem hafa mest umsvif í tengslum við haftengdra starfsemi og hafið eru Hafrannsóknastofnun Íslands og Matís. Hjá Hafrannsóknastofnun starfa um 160 manns og er starfseminni skipt í þrjú rannsóknarsvið sem eru sjó- og vistfræðisvið, nytjastofnasvið og yfirráðgjafasviði. Stofnunin rekur síðan stoðdeildir eins og útibú og tilraunaeldisstöð í Grindavík. Þó að hér sé kosið að setja starf Hafrannsóknastofnunar undir rannsóknir gengur mestur hluti af starfseminni út á vöktun sem beinlínis styður við fiskveiðiráðgjöf stofnunarinnar. Fjórum sinnum á ári fara skip stofnunarinnnar allt í kringum landið og mæla hitastig, seltu, haftstrauma og ýmsa eðliseiginleika sjávar og framleiðni. Þannig er Hafrannsóknastofnun með nokkuð umfangsmikið vöktunarstarf. Þessi vöktun er um margt öflugri en hjá nokkuri annarri þjóð.

Sú gagnaöflun sem fer fram í gegnum vöktunarstarf stofnunarinnar er mjög ítarleg. Þetta á við um lífríkið í hafinu og fiskistofnana, hita og strauma ofl. Tíminn sem stofnunin hefur haldið úti þessari starfsemi er langur og stöðugleikinn mikill. Ekki hefur mikið verið átt við grunnnálgunina þegar kemur að þessum rannsóknum. Þessi stöðugleiki hefur tryggt það að þau gögn sem stofnunin ræður yfir eru að mati margra afar mikilvæg og verðmæt.

Meðan að rannsóknir á fiskistofnum í hafinu eru meginviðfangsefni Hafrannsóknastofnunarinnar má segja að verkefni Matís séu öðru fremur að efla nýsköpun og vöruþróun í tengslum við þær greinar sem vinna með afurðir úr hafinu eins og t.d. sjávarútveg, fiskvinnslu, og fiskeldi. Hlutafélagið Matís ohf. tók til starfa í janúar 2007 og heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Í hlutafélaginu sameinuðust þrjár ríkisstofnanir sem unnið höfðu að matvælarannsóknum og þróun í matvælaiðnaði. Þetta voru Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir Keldnaholti og Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar. Starfsemi Matís er skipt í 5 fagsvið sem eru:

  •     Vinnsla, virðisaukning og eldi
  •     Öryggi, umhverfi og erfðir
  •     Mælingar og miðlun
  •     Nýsköpun og neytendur
  •     Líftækni og lífefni

Tæplega 100 manns starfa hjá Matís á starfsstöðum í Reykjavík, Akureyri, Egilsstöðum, Flúðum, Höfn í Hornafirði, Ísafirði, Neskaupstað, Sauðárkróki og Vestmannaeyjum. Þó stærstur hluti af starfsemi Matís tengist rannsóknum er lúta að nýtingu auðlinda hafsins eru verkefnin fjölbreyttari og tengjast fjölmörgum sviðum. Matís er með mjög umfangsmiklar rannsóknir á sviði sjávarlíftækni sem amk 20 manns koma að.

Fjárhagsleg umsvif helstu rannsóknastofnana eru á íslenskan mælikvarða töluverð þó ætla megi að samsvarandi stofnanir erlendis hafi úr töluvert meiri fjármunum að moða. Veltan hjá Hafrannsóknastofnun árið 2010 var t.d. um 2,4 milljarðar. Af fjárlögum komu 2/3, en 1/3 komu úr sjóðum, mikið úr samkeppnissjóðum og Evrópusjóðum. Hjá Matís námu umsvifin um 1,2 milljörðum króna. Um 65% af tekjum koma úr innlendum og erlendum samkeppnissjóðum og fyrirtækjum en 35% frá hinu opinbera. Hlutur tekna úr erlendum samkeppnissjóðum hefur aukist mikið hjá Matís undanfarin ár og leiðir félagið nokkur stór Evrópuverkefni. Fyrir utan þá fjármuni sem lagðir eru til rannsókna hjá Hafrannsóknastofnun hafa Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki lagt til fjármuni og skip og búnað til rannsókna og þróunar á veiðum t.d. á makríl og loðnu, en erfitt er að átta sig á um hversu háar upphæðir er að ræða. Ef litið er á hver hlutdeild rannsókna er í samanburði við heildarumsvif í sjávarútvegi má ætla að kostnaður við hafrannsóknir sé um 1,5% af heildar útflutningsverðmæti, en á síðasta ári nam útflutningsverðmæti afla íslenskra fiskiskipa um 220 milljörðum króna.

Helsta uppspretta fjármagns í frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækjum er almennt í gegnum framtaksfjárfestingasjóði. Þessir sjóðir eru gjarnan flokkaðir eftir því í hvaða geirum er fjárfest og eftir því á hvaða fjárfestingarstigi, en flokkunin er í grófum dráttum þannig að talað er um frumstig (e. seed stage), uppbyggingarstig (start-up stage), þenslu- og vaxtarstig (e. expansion stage), endurfjármögnunarstig (e. Replacement capital) og yfirtökustig (e. Buyout).

Þegar litið er til þess hversu miklum fjármunum Íslendingar verja til rannsókna og þróunar almennt hefur það fjármagn aukist verulega á síðustu árum. Árið 1997 voru þessi fjárframlög um 1,7% af vergri landsframleiðslu sem var aðeins fyrir neðan meðaltal OECD ríkja. Í dag eru Íslendingar aftur á móti í hópi þeirra þjóða innan OECD sem leggja hvað mest til rannsókna og þróunar ef miðað er við hlutfall af vergri landsframleiðslu. Árið 2007 var þetta hlutfall tæplega 2,7% af landsframleiðslu, en það svarar til þess að um rúmum 35 milljörðum króna hafi verið varið til rannsókna og nýsköpunar það ár. Til samanburðar má geta þess að Írar lögðu árið 2008 2,6 milljarða Evra eða 429 milljörðum króna til rannsókna sem nemur um 1,66% af landsframleiðslu.

Landsframleiðsla hefur dregist nokkuð saman síðan 2007, meðan framlög til rannsókna og þróunar hafa nokkurn veginn staðið í stað, þannig að hlutfallið hefur að öllum líkindum hækkað. Framlög hins opinbera til rannsókna og þróunar hér á landi nema um 1,2% af landsframleiðslu sem er hæst meðal OECD ríkja. Fyrirtækin í landinu leggja þó ívið meira til, en af þeim 35 milljörðum sem fóru til þessa málaflokks komu 52% eða 19 milljarðar frá fyrirtækjum, 38% frá hinu opinbera. Um 10% komu erlendis frá, en Íslendingar fengu rúmlega 15 milljónir EVRA í rannsóknarstyrki úr 7. rammaáætlun ESB á árunum 2007-2008. Það er jávætt að Íslensku vísindafólki hefur tekist að ná meira úr rannsóknarsjóðum ESB en ríkið hefur greitt í þá.

Mynd 18 – Hlutfallsleg samsetning (%) útgjalda til rannsókna og þróunar eftir atvinnusviðum frá 1981-2007

Þegar litið er á hver hlutdeild rannsókna sem tengjast hafinu er með tilliti til heildarfjármuna sem fara til rannsókna almennt, kemur í ljós að af þeim u.þ.b. 35 milljörðum sem Íslendingar verja til rannsókna og þróunar, þá fara innan við 10% til verkefna sem tengjast hafinu og hefur hlutur rannsókna er tengist hafinu heldur verið að minnka. Á móti kemur að síðan 2003 hefur verið starfræktur sérstakur rannsóknarsjóður í sjávarútvegi sem gengur undir nafninu AVS sem stendur fyrir aukið virði sjávarfangs. Upphaflega var gert ráð fyrir að sjóðurinn yrði einungis starfræktur til fimm ára. Nú er hins vegar ráðgert að sjóðurinn verði starfræktur að minnsta kosti til ársins 2014. Heildarúthlutun sjóðsins árið 2010, nam 330 milljónum króna til 80 verkefna, en þess má geta að umsóknir það ár voru 170 og var alls sótt um 800 milljónir. Hámarksstyrkur til verkefnis er 8 m.kr, en hann getur verið hærri í sérstökum verkefnum.

Mynd 19 – Yfirlit yfir heildarúthlutanir AVS 2003-2010

Menntastofnanir

Eitt af því sem er mikilvægt þegar kemur að rannsóknastarfi eru öflugar menntastofnanir sem framleiða mikið af hæfu starfsfólki. Bent hefur verið á að Ísland komi ekki nógu vel út í samanburði við aðrar þjóðir þegar skoðað er hlutfall námsmanna er ljúka framhaldsskólum. Nemendum er sækja nám á háskólastigi hér á landi hefur þó fjölgað verulega á síðustu árum úr tæplega 12.100 nemendum árið 2001 í rúmlega 19.500 nemendur árið 2010. Einnig var það talið hamla vísindastarfi hér á landi að of fáir legðu fyrir sig háskólanám í raunvísindum og verkfræði. Að lokum hefur verið talað um að auka mætti verulega áherslu á þau fræði er lúta að rannsóknum á hafinu og lífríki þess. Háskóli Íslands sem er stærsti skólinn á háskólastigi á Íslandi með 25 deildir og 16.000 nemendur hefur t.d. ekki lagt sérstaka áherslu á rannsóknir og þekkingarmiðlun er tengist hafinu og möguleikum þess. Einn viðmælandi orðaði það svo að töluvert meira væri litið inn til landsins við val á viðfangsefnum, en til hafs. Þó verður að geta þess að Háskóli Íslands kemur að rekstri nokkurra sjálfstæðra rannsóknasetra sem starfrækt eru í kringum landið, en mismikil áhersla er á rannsóknir tengdar hafinu í þessum fræðasetrum. Einnig er starfrækt innan vébanda Háskólans Sjávarútvegsstofnun með einu stöðugildi.

Hjá Háskólanum á Akureyri hefur verið lögð töluverð áhersla á nám er tengist hafinu. Við skólann eru starfræktar þrjár deildir og er ein þeirra Auðlindadeild en innan hennar er hægt að stunda nám í Fiskeldi, Líftækni, Sjávarútvegsfræði og Umhverfisfræði. Heildarfjöldi nemenda við skólann er um 1500 og akademískir starfsmenn um 100.

Við Háskólann á Hólum er starfrækt Fiskeldis- og fiskalíffræðideild sem hefur það að markmiði að afla þekkingar og miðla þekkingu á sviði sjávar- og vatnalíffræði, fiskeldis og fiskalíffræði. Við deildina starfa 8 starfsmenn og nemendur eru 11.

Við Háskólasetrið á Vestfjörðum starfa um 10 manns auk lausráðinna kennara. Í húsnæði Háskólaseturs starfa í heild yfir 50 manns við rannsóknir, kennslu og þjónustu hjá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum. Háskólasetrið er fjarnámssetur sem þjónustar 150 fjarnema, það starfrækir meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun fyrir um 30 meistaranema auk þess að bjóða upp á margs konar sumarnámskeið.

Íslensk stjórnvöld hafa stutt þróunarlöndin á sviði fiskimála með rekstri Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Skólinn hóf starfsemi sína árið 1997 og var Hafrannsóknastofnun falin rekstur skólans í samvinnu við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.

Fyrir utan háskólastofnanirnar sem getið hefur verið hér að ofan hafa nokkrar menntastofnanir boðið upp á menntun á sviði starfs- og tæknigreina er nýst getur í sjávarútvegi. Í Tækniskóla Íslands er boðið upp á nám í skipstjórn og vélstjórn. Námið þykir gott og er alþjóðlega viðurkennt. Aukin ásókn hefur verið í þetta nám og eru nemendur á yfirstandandi skólaári í skipstjórn 92 og 183 í vélstjórn. Skólinn býður einnig upp á svokallað dreifnám í ofangreindum greinum, en það er blanda af fjarnámi og staðnámi og er hugsað fyrir þá sem hafa lagt stund á sjómennsku, en ekki náð sér í réttindi. Nú eru 112 skráðir í slíkt nám í skipstjórn og 30 í vélstjórn. Í Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Ísafirði og Fjölbraut Suðurnesja hefur verið boðið upp á grunnnám í vélstjórn og við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum hefur verið starfrækt bæði vélstjórnar- og skipstjórnarbraut, en skipstjórnarnámið er fyrir þá sem vilja ölast réttindi til að stýra smærri skipum. Nemendur í þessum skólum sem starfræktir eru á landsbyggðinni eru um 150. Á Íslandi er ekki boðið upp á hásetamenntun. Rætt hefur verið um að bjóða upp á slíkan menntun, en víða erlendis er boðið upp á slíkt nám. Fyrir utan ofangreinda möguleika í menntun sem tengist sjómennsku, er einnig rekin af hálfu Slysavarnarfélagsins slysavaranaskóli sjómanna og í Grindavík er rekinn Fisktækniskóli Íslands ehf.

Horft út fyrir landsteinana

Þegar kemur að möguleikum í tengslum við rannsóknir í hafinu virðast möguleikarnir óþrjótandi og þar er mikið verk óunnið þegar kemur að hafinu og hafsbotninum. Írsk stjórnvöld hafa staðið fyrir kortlagningu hafsbotnsins í kringum Írland síðustu 10 ár. Reynt var að kanna yfirborð hafsbotnsins lífríki og hvaða efni væri þar að finna. Samkvæmt úttekt sem gerð var af ráðgjafafyrirtækinu Price Waterhouse Cooper er áætlað að verðmæti þeirra upplýsinga er safnað var geti verið u.þ.b. 240 milljónir Evra. Verkefnið hefur gert Írum kelift að byggja upp einstaka þekkingu sem nýtist fyrirtækjum og rannsóknaraðilum við að þróa nýjar viðskiptahugmyndir.

Helstu menntastofnanir er tengjast hafinu

  •     Tækniskóli Islands
  •     Háskóli Íslands, rannsóknastofnanir á ýmsum sviðum auk sjávarútvegsstofnunar
  •     Háskólinn á Akureyri. Auðlindadeild, sjávarútvegs- og fiskeldisbraut
  •     Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar
  •     Hólaskóli, fiskeldisdeild
  •     Hafrannsóknastofnunin
  •     Matís
  •     Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna
  •     Fisktækniskóli Íslands

Áhugamenn um lífríki hafsins benda stundum á að mun meiri fjármunum sé varið til geimrannsókna, en til rannsókna á hafinu. Þannig nemur u.þ.b. 700 milljón dollara framlag Bandaríkjamanna til hafrannsókna aðeins 4% af þeim fjármunum sem þeir verja til geimrannsókna. Bretar sem eru þekkt siglingaþjóð verja helmingi meiri fjármunum til geimrannsókna, um 200 milljón pundum, en til hafrannsókna. Hafið sem þekur 71% af yfirborði plánetunnar og hefur gríðarleg áhrif á lífsgæði alls mannkyns um ókomna framtíð er aftur á móti að miklu leiti órannsakað. Í ljósi þess er ekki óeðlilegt að menn spyrji hvort þetta sé rétt forgangsröðun fjármuna? Höfum við verið svo upptekin af því að kanna aðstæður í himingeimnum og leita að lífi á öðrum hnöttum að við höfum vanrækt að rannsaka til fullnustu það umhverfi sem við lifum og hrærumst í og það líf sem er allt í kringum okkur? Svarið er klárlega já og því eru þjóðir heims vakna upp við að næsta kapphlaup í leit að þekkingu er ekki í geimnum heldur að öllum líkindum í hafinu.

Rannsóknir á hafinu og lífríki þess hafa í raun gildi í sjálfu sér fyrir alla jarðarbúa þegar litið er til þess hvað hafið hefur mikil áhrif á þróun lífs á jörðinni. Eftirspurn eftir þekkingu sem getur aukið skilning okkar á þessum áhrifum og gert okkur kleift að sjá orsakasamhengi hlutanna og spá fyrir um framtíðina er stöðugt að aukast. Rannsóknir á hafinu og lífríki þess skipta einnig miklu fyrir þjóð sem býr á eyju úti í miðju hafi og lifir öðru fremur á því sem það færir okkur. Vöktun hafsvæðisins í kringum Írland og rannsóknir á því hvernig hafið tengist loftslagsbreytingum er meðal þess sem litið er á sem lykilatriði í tengslum við Smart Ocean sjávarklasann. Samkvæmt skýrslu sem gefin var út í tengslum við verkefnið er áætlað að 750 milljónum dollara verði varið í heiminum árið 2012 bara til að kanna loftslagsbreytingar. Gert er ráð fyrir að fjölmörg fyrirtæki og stofnanir komi að þessu verkefni á Írlandi. Fyrir utan írsku hafrannsóknastofnunina (Marine institute) má nefna veðurstofur og fyrirtæki er þróa búnað til mælinga í hafinu.

Fjölmargar stofnanir víða um heim selja þjónustu er tengist vöktun og rannsóknum og hafa af því verul­egar tekjur. Meðal þeirra er NOAA (The National Oceanic and Atmospheric Administration) í Bandaríkjunum, en starfsemi þeirrar stofnunar er mjög víðtæk og nær yfir nánast alla starfsemi er tengist hafinu.

Nokkrar staðreyndir um hafið:
  • Um 71% jarðar eru þakin sjó, en aðeins tæp 29% eru land.
  • Í hafinu er að finna rúmlega 97% af öllu vatni á jörðinni
  • Hafið leikur aðalhlutverkið í þróun loftslags á jörðinni þar sem samspil uppgufunar, hafstrauma og vinda stjórnar öllu
  • Höfin binda mikinn hluta þess koltvíoxíðs sem verður til við bruna olíu, kola og fleiri efna
  • Út frá meginlöndunum teygir sig oftast lítið eitt hallandi landgrunn niður á um 200 m dýpi
  • Landgrunnið er aðeins 6 – 7 % af flatarmáli hafsbotnsins, en er samt það svæði sem hefur mesta efnahagslega þýðingu
  • Meira en 90% þeirrar fæðu sem við sækjum í höfin kemur af landgrunninu og einnig flest hráefni sem unnin eru af hafsbotni
  • Yfir 30% af jarðskorpunni er úthafsbotn, þykkur leirbotn, sem liggur á milli 4000 – 6000 m dýpi
  • Úthafsbotninn er minnst þekkta svæði jarðar og stór hluti þess hefur aldrei verið kannaður. Um 2000 fisktegundir og margfalt fleiri hryggleysingjar hafa náð að aðlagast þeim þrýstingi, kulda og myrkri sem þar ríkir.

Tækifæri og áskoranir

Aðstæður fyrir sprotafyrirtæki á Íslandi eru um margt erfiðar. Aðgangur að fjármagni er takmarkaður og fáir tilbúnir að leggja fjármuni til nýsköpunar. Oft vantar sérmenntað fólk sérstaklega í upplýsinga­tækni og raungreinum. Heimamarkaðurinn er afar lítil og því erfitt að byggja upp digra sjóði í gegnum þjónustu við hann. Aðkoma erlendra fjárfesta gæti án efa auðveldað mjög sókn íslenskra sprotafyrirtækja á erlenda markaði fengjust þeir til að leggja fé í íslensk fyrirtæki. En það vilja þeir ekki og ástæðan er einföld. Erlendum fjárfestum þykir rekstrarumhverfi fyrirtækja hér of áhættusamt.

En þó umhverfið laði ekki að erlenda fjárfestingu er óhætt að segja að ýmislegt hér á landi er með því besta sem gerist í tengslum við haftengdar rannsóknir. Íslenskir vísindamenn koma almennt vel út í alþjóðlegum samanburði. Fjöldi rannsóknarvirkra vísindamanna er góður, sem og fjöldi birtra greina (Heilsa og hagsæld.). Einnig koma Íslendingar vel út þegar litið er til tilvitnanatíðni í vísindagreinar. Þetta kemur m.a. fram í skýrslu OECD frá 2008 um horfur í vísindum, tækni og atvinnulífi aðildarríkjanna (OECD Science, Technology and industry outlook 2008). Aftur á móti er frammistaða Íslendinga þegar kemur að fjölda alþjóðlegra einkaleyfa ekki góð þegar litið er til þess fjármagns sem hér er varið til rannsókna og þróunar.

Bent er einnig á í skýrslu OECD að styrkja þurfi tengsl atvinnulífs og vísinda og auka þátttöku atvinnulífsins í stjórnun stuðningskerfisins. Einnig er talið áhyggjuefni að þó framlög til rannsókna séu hér hlutfallslega há þá sé nýsköpun sem hafi í för með sér nýja vöru eða þjónustu ekki mikil. Eitthvað virðist hér skorta sem ýtir undir að vörur sem henta til sölu á markaði séu þróaðar og að fleiri öflug fyrirtæki komist af sprotastiginu. Góðir fræði- og vísindamenn eru ekki endilega hæfastir þegar kemur að hinum viðskiptalegu þáttum, stjórnun fyrirtækja eða markaðssetningu vöru.

Það eru eflaust ýmsar ástæður fyrir þessu. Hér er á ferðinni séríslenskt vandamál. Oft er um að ræða flókið samspil umhverfis og viðhorfa. Í umhverfinu getur þannig verið um að ræða að aðgangur að fjármunum sé meiri meðan verið er að rannsaka og þróa vöru, en minni þegar kemur að því að styrkja fyrirtækið og gera því kleift að markaðssetja hana. Viðhorf geta m.a. endurspeglast í því að leitin að þekkingu þyki almennt áhugaverðari í vísindasamfélaginu, en verkefni sem tengjast viðskiptum og markaðsmálum. Í skýrslunni Heilsa og hagsæld með nýsköpun sem gefin var út 2009 er talað um svokallaða nýsköpunargjá sem er gjáin á milli hugarheims vísinda og tækni og hugarheims viðskiptanna. Öðru megin er mat á árangri fólgið í fjölda birtra greina og tilvitnana. Hins vegar er um að ræða hagræn gildi þar sem arðsemi og sala á markaði eru meginviðfangsefnið. Með því að efla samskipti á milli þessara tveggja heima og með því nýta það besta sem þessir ólíku heimar hafa upp á að bjóða er hægt að skapa vörur. Eitt af verkefnunum er þannig fólgið í að láta vísindin og viðskiptaþekkinguna vinna saman

Þeir sem eru viðskiptamegin þurfa þekkingu og innsýn á möguleikum vísindanna og þeir sem eru vísindamegin þurfa að gera sér grein fyrir mikilvægi markaðsvinnu og þeim kostnaði sem er henni samfara. Til að ná árangri með vöru er nefnilega afar mikilvægt að til staðar sé þekking og tilfinning fyrir þörfum markaðarins, hæfni til að pakka vörunni inn og gera hana áhugaverða. Einnig þarf að ígrunda vel verðlagningu og stjórnun og nýting fjármuna þarf að vera skynsamleg og markviss. Að lokum þarf mikla samskiptahæfni og þekkingu á samningatækni, samningagerð og reynslu í verndun hugverka og öflun einkaleyfa til að tryggja góða arðsemi.

Fulltrúar margra þeirra fyrirtækja er rætt var við í tengslum við gerð þessarar skýrslu töluðu um að erfitt væri hér á landi að fá fjármagn til þess að setja á stofn fyrirtæki, sinna rannsóknum og til að þróa og markaðssetja vöru. Einnig bentu þeir á að algengara væri að fyrirtæki fjármögnuðu rannsóknir hjá opinberum aðilum en að opinberir aðilar fjármögnuðu rannsóknir fyrirtækja. Bentu þeir á tölur þessu til staðfestingar en samkvæmt þeim fjármagna opinberir aðilar um 5% af rannsóknum í atvinnufyrirtækjum, en fyrirtæki fjármagna 22% af rannsóknum hjá háskólum, og opinberum rannsóknastofnunum. Þetta er þó ekki einhlítt og oft koma hinar opinberu stofnanir inn með töluverð fjárframlög í verkefnum sem eru unnin fyrir fyrirtækin.

Víða erlendis eru samvinna og samskipti fyrirtækja við opinberar stofnanir og háskóla í nokkuð föstum skorðum miðað við það sem við eigum að venjast hér á landi. Við úthlutun rannsóknarstyrkja er þannig oft kveðið á um hlutfall þeirrar þjónustu sem einkafyrirtæki kaupa af stofnunum eða öfugt þ.e.a.s. hversu mikla þjónustu stofnanir kaupa af fyrirtækjum. Af samtölum okkar við fulltrúa fyrirtækja kom fram að hér væri þessi verkskipting ekki nægilega skýr. Þannig væru t.d. nöfn einkafyritækja oft tengd við umsóknir um styrki hjá stofnunum, en síðan væri samstarf oft af skornum skammti.

Þeir sem rætt var við og reka fyrirtæki hér á landi tala einnig nokkuð um að hlutur einkageirans þegar kemur að opinberum framlögum til rannsókna og þróunar sé nokkuð rýr í samanburði við hina opinberu aðila. Fulltrúar hinna opinberu fyrirtækja myndu á móti segja að þeim væri gert að reka samsvarandi starfsemi og stofnanir erlendis, en heildarfjármagn sem þau hefðu til ráðstöfunar væri minna. Þannig benda þeir er koma að hafrannsóknum hér á landi á að þó hafsvæðið sé stórt og fjöldi tegunda sem ber að vakta sé mikill þá séu framlög til málaflokksins lægri en þekkist víða annars staðar. Fulltrúar fyrirtækjanna benda á að þó opinber framlög til rannsókna og þróunar séu hlutfallslega há hér á landi í samanburði við önnur OECD ríki hefur Ísland nokkra sérstöðu þegar kemur að framlögum hins opinbera til einkageirans sem er með því lægsta sem þekkist. Í þessu samhengi má benda á að 55% af rannsókna og þróunarstarfi er unnið í fyrirtækjum, en 45% fer fram hjá aðilum tengdum opinbera geiranum (Heilsa og hagsæld með nýsköpun).

Stærstur hluti opinberra framlaga til rannsókna og þróunar rennur til menntastofnana. 42% fer til háskólanna sem hafa öðru fremur einbeitt sér að grunnrannsóknum. Opinberar stofnanir sem hafa fremur sinnt hagnýtum rannsóknum taka til sín um 30%. Af hálfu Vísinda- og tækniráðs hefur meiri áhersla hin síðari ár verið lögð á svonefnda samkeppnissjóði þar sem styrkumsóknir eru metnar faglega í innbyrðis samkeppni. Margir telja æskilegt að meira af almannafé fara í samkeppnissjóði, telja það til bóta fyrir alla og stuðla að eðlilegri samkeppni og framþróun vísinda. Í dag eru þessir sjóðir að fá lítinn hluta af opinberum framlögum eða tæplega 20%. Að lokum eru svo tæplega 10% af opinberum framlögum árgjöld í erlendar samstarfsáætlanir og er rammaáætlun Evrópusambandsins um rannsóknir og þróun þar langstærst.

Skattaumhverfi hér á landi hefur hingað til falið í sér minni hvata til rannsókna en þekkist víða annars staðar, en mörg ríki hafa lengi notað skattatilhliðranir til að efla nýsköpun og rannsóknir. Nú er vonandi að verða breyting á þessu hér, en árið 2011 er fyrsta árið þar sem hægt er að fá skattaívilnun fyrir rannsókna- og þróunarstarf.

Hér á landi hafa í raun verið lagðar skattalegar álögur á rannsóknir og lendir Ísland í hópi þeirra ríkja innan OECD sem koma þar hvað verst út. Eitt af því sem bent hefur verið á að gæti orðið til bóta væri að fella niður virðisaukaskatt af aðföngum og tækjum til rannsókna. Innflutt aðföng til rannsókna hafa hækkað nokkuð vegna gengis íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum og því veitist íslenskum fyrirtækjum nú að mörgu leiti erfiðara nú en á undanförnum árum að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun (Heilsa og hagsæld með nýsköpun.)

Tíund alls þess, sem hið opinbera leggur í rannsóknir og þróun, fer í aðildargreiðslur til evrópskra, nor­-
rænna og annarra alþjóðlegra samstarfsáætlana og stofnana. Upphæðin, þessir tæplega tveir mill­jarðar, er ekki mikið lægri en sú upphæð sem ríkið leggur í opinbera samkeppnissjóði eins og Rannsóknasjóð, Tækniþróunarsjóð og aðra slíka. Það er því mikils vert að þetta fé gagnist íslensku samfélagi.

Einfaldasti mælikvarðinn á vegferð þessa fjár er hvort meira fé skilar sér til landsins en greitt er út hér. Hingað til hafa Íslendingar fengið meira fé út úr þessum sjóðum en þeir hafa lagt til. Þannig námu styrkir sem veitt var til íslenskra aðila í evrópskum áætlunum rúmlega tveimur milljörðum árið 2009. Til viðbótar koma styrkir úr norrænum áætlunum og sjóðum. Því er óhætt að fullyrða að frá þeim sjónarhóli hefur árangurinn verið góður. Bilið fer hins vegar minnkandi og margt bendir til að það verði erfiðara að fá fjármagn til landsins á næstu árum en verið hefur hingað til.

Þegar kemur að því að skoða möguleika og áherslur í tengslum við rannsóknir hér við land berast böndin fljótt að þeirri ógn sem steðjar að fjölbreytni lífríkisins í hafinu og tengist hnignun búsvæða. Þó miklar framfarir hafi orðið í veiðum og á gerð veiðarfæra er sá möguleiki fyrir hendi að veiðar geti raskað búsvæðum sem og efnistaka af hafsbotni. Umhverfisbreytingar í kjölfar mögulegra veðurfarsbreytinga eða mengunar geta einnig ógnað búsvæðum og vistkerfum hafsins. Með bættri tækni, auknum rannsóknum og þekkingu getur verndun hafsvæða orðið markvissari og árangursríkari. Einn liður í því að mati eins viðmælenda felst í að efla vistfræðirannsóknir, en þó ýmislegt sem gert er á sviði fiskveiðirannsókna hjá Hafrannsóknastofnun sé með því besta sem gerist þá verður að telja að vistfræðirannsóknir stofnunarinnar séu fremur veikburða. Sérfræðingar á sviði þörunga og hafeðlisfræði og hafefnafræði eru þannig fremur fáir. Einnig vantar stofnunina fjámagn til að vinna úr þeim miklu gögnum sem er safnað.

Nokkuð hefur verið rætt um að kortleggja hafsvæðið í kringum Ísland. Slík kortlagning getur verið notadrjúg við leit að auðlindum á og undir hafsbotni og einnig orðið til að að efla skilning á umhverfisröskun vegna starfsemi á landi eða í hafi eða vegna nýtingar á auðlindum hafsins er áhrif hafa á hafsbotninn. Á sínum tíma voru miklar vonir bundnar við komu nýs rannsóknarskips Hafrannsóknastofnunar, Árna Friðriksson, sem búið var fjölgeisladýptarmæli en með tilkomu þess sköpuðust auknir möguleikar til rannsókna á hafsbotninum við Ísland. Þetta verkefni hefur þó gengið fremur hægt og mikið verk er enn óunnið. Í dag eru Íslendingar búnir að kortleggja 10-15% af hafsbotninum, en miðað er við að þetta verkefni geti tekið um 10 ár. Landhelgisgæslan hefur einnig annast rekstur á sjómælingasviði. Þar er unnið að sjókortagerð í sérhæfðum tölvuforritum og fjölgeislamælir hefur verði tekinn í notkun á sjómælingaskipinu Baldri. Í kjölfarið hafa fyrstu íslensku rafrænu sjókortin litið dagsins ljós. Markmiðið með þessu starfi landhelgisgæslunnar hefur fyrst og fremst falist því að tryggja öryggi sjófarenda við Ísland og koma í veg fyrir möguleg mengunarslys vegna skipsstranda. Þessi vinna hefur m.a skilað því að fjölmörg skemmtiferðaskip er áður treystu sér ekki inn á firði landsins sigla þar nú inn og með þeim koma ferðamenn og tekjur inn í hinar dreifðu byggðir landsins.

(kafli úr skýrslu sjávarklasans)

Many organizations do research on the ocean and its ecosystems here in Iceland but they vary in their operations. Among the organizations are Siglingastofnun, Orkustofnun which has been a part of research related to resources on and under the ocean bed, Vedurstofan researches the ocean area, weather conditions and the effects of ocean currents and there are a few independent research centers around the island. The University of Iceland and University of Akureyri have also done ocean related research but the two biggest organizations in ocean related research are Hafrannsóknastofnun Íslands (Marine Research Institute) and Matís.

The Marine Research Institute employs 160 workers and their operations are divided into three research fields which are Marine Environment Section, Marine Resources Section and The Fisheries Advisory Section. The organization also runs supporting departments such as branches and experimental aquaculture in Grindavik. Note that despite The Marine Research Institute being included under research the biggest part of their operations are monitoring activities that directly support their Fisheries Advisory Section. Four times a year the institutions ships go all around the island, measure temperatures, salinity, ocean currents and other physical properties of the ocean and productivity. The Marine Research Institute

(An abstract from a report by the Iceland Ocean Cluster.)