Þorskur á þurru landi
Getur frumuræktun fiska orðið öflug atvinnugrein hérlendis?
Að snæða ferskan þorsk eða lax án þess að veiða eða ala hann í eldisstöð hljómar eins og framtíðarsýn en nýsköpunarfyrirtæki eru þegar farin að gera þetta að veruleika með frumuræktuðu sjávarfangi: raunverulegt fiskkjöt sem er ræktað úr fiskfrumum.
Áætlað er að um þessar mundir nemi sala á frumuræktuðu kjöti á heimsvísu um 300 milljónum dala en tífaldist á næstu fimm árum. Ráðgjafarfyrirtækið Mckinsey spáir því að árið 2030 verði hálft prósent af framleiddu kjötmeti frumuræktað kjöt.
Ein stærsta áskorunin fyrir fyrirtæki í frumuræktun á kjöti er kostnaður. Miklar framfarir hafa þó átt sér stað og hagkvæmni framleiðslu umtalsvert. Sem dæmi náðist að minnka kostnað við ræktun á árunum 2019 til 2021 um tæplega 90% og sú þróun hefur haldið áfram. Mckinsey spáir því að með áframhaldandi hagkvæmni í framleiðslu muni frumuræktað kjöt verði ódýrari heldur en hefðbundin framleiðsla á kjöti í kringum árið 2030. Frumuræktun á kjöti kann því að verða mjög arðbær fyrir þau fyrirtæki sem ná forystu á því sviði.
Ísland getur tekið forystu í þessari nýju atvinnugrein. Í þessari grein verður fjallað um frumuræktaðann fisk og þá sérstöðu sem Ísland hefur til að vera í forystu á þessu sviði.
Að rækta fisk án hafsins
Stutta útgáfan af ferli framleiðslu á frumuræktuðum fiski er eitthvað á þessa leið: Ræktun hefst á söfnun vefjasýna úr lifandi fiskum eins og Atlantshafsþorski eða bleikju. Einangra þarf stofnfrumur fisksins sem þróast í vöðva, fitu og stoðvefi. Þessar frumur eru síðan settar í lífhvarfa þar sem þær fá næringu úr ræktunarvökva til þess að vaxa.
Meðan frumurnar vaxa og fjölga sér, mynda þær fiskhold sem er af svipuðum toga og hold af villtum fiski. Þar á eftir er vefurinn mótaður til að líkja eftir áferð raunverulegs sjávarfangs að lokum er niðurstaðan er ræktaður fiskur. Bandarísku fyrirtækiu Wildtype og BlueNalu hafa nú þegar þróað lax og túnfisk með þessari aðferð og kóreska fyrirtækið CellMeat framleiðir m.a. rækjur.
Af hverju skiptir frumuræktaður fiskur máli?
Samkvæmt spám mun eftirspurn eftir sjávarfangi tvöfaldast fyrir árið 2050. Frumuræktaður fiskur getur reynst góð viðbót við sjávarútveg og fiskeldi þar sem sjávarútvegur er að glíma við takmarkaða auðlind sem vert er að passa vel uppá.
Yfirlit yfir nokkur leiðandi fyrirtæki í frumuræktun fisks
Tækifæri Íslands
Ísland er nú þegar í fararbroddi í sjávarlíftækni og nýsköpun í sjávarútvegi. Með öflugum rannsóknum og sterkum markaðstengingum hefur Ísland allt sem til þarf til að verða leiðandi afl í frumuræktuðum fiskafurðum. Rétt eins og landið er að ná forystu í landeldi á laxi getur frumuræktun orðið önnur mikilvæg útflutningsgrein.
Íslenski sjávarklasinn í samstarfi við ORF Líftækni og kóreska nýsköpunarfyrirtækið Cellmeat, héldu nýverið fyrstu smökkun á frumuræktuðum skelfiski í Evrópu. Almenn ánægja var á meðal gesta í Sjávarklasanum með þessa fyrstu smökkun sem sýndi einnig að frumuræktaður fiskur er ekki einungis hugmynd heldur raunverulegt tækifæri. Cellmeat hefur nú í hyggju að opna verksmiðju á Íslandi. Einnig starfar nýsköpunarfyrirtækið Sea Growth innan Sjávarklasans og einbeitir sér að frumuræktuðu sjávarfangi.
Áskoranir framundan
Þrátt fyrir öra þróun stendur frumuræktaður fiskur frammi fyrir áskorunum. Framleiðslukostnaður er enn hár en hefur þó lækkað umtalsvert og búist er við að hann haldi áfram að lækka með tækniframþróun og aukinni stærðarhagkvæmni. Samkvæmt mati forsvarsmanna Cellmeat er þó hægt að ná sambærilegum framleiðslukostnaði og hefðbundið sjávarfang ef framleiðslan fer yfir 200 tonn á ári.
Viðhorf almennings er önnur áskorun fyrir allt frumuræktað kjöt. Neytendur kunna að vera tortryggnir gagnvart „tilraunastofumatvælum“. Loks má nefna að miklir fjármunir hafa runnið til þróunar frumuræktunar á nautakjöti og kjúkling en sjávarfang notið minni athygli. Fyrir nýsköpunarfyrirtæki á sviði frumuræktunar á fiskmeti kann því að vera töluverð áskorun að kynna fyrir fjárfestum þau tækifæri sem felast í frumuræktuðu fiskmeti.
Framtíðarsýn
Með endurnýjanlegri orku og jákvæðri alþjóðlegri ímynd, sem framleiðandi gæða sjávarafurða, getur frumuræktaður fiskur orðið góð viðbót við íslenskan sjávarútveg. Til þess þarf Ísland að setja skýr matvælaöryggis- og merkingarviðmið fyrir frumuræktað sjávarfang og vinna slíkt í nánu samstarfi við Evrópulönd.
Hlúa þarf að þeim klasa fyrirtækja, sem eru að koma sér fyrir hérlendis á þessu sviði eins og Seagrowth og CellMeat. Þá þarf að efla fyrirtæki á borð við Matís og veita þeim aukið svigrúm til að auka sína þekkingu á þessu sviði. Þá mun Orf líftækni gegna afar mikilvægu hlutverki í uppbyggingu á þessu sviði á komandi árum.
Frumuræktaður fiskur er að verða að veruleika. Ísland er í einstakri stöðu til að nýta innlenda þekkingu, orku og tengslanet til að vera í fararbroddi á þessu sviði.
Höfundar greinar eru Jason Latina, Þór Sigfússon og Oddur Ísar Þórsson.