Mat á stuðningskerfi við uppbyggingu landeldis á Íslandi
Samantekt
Landeldi er að verða sífellt mikilvægari þáttur í bláa hagkerfi Íslands. Á undanförnum árum hefur veruleg fjárfesting átt sér stað í landeldi á laxi, knúin áfram af sérstöðu landsins — hreinni endurnýjanlegri orku og nægu framboði af ferskvatni. Þessi iðnaður heldur áfram að vaxa og eru nokkur stór verkefni á framkvæmda- eða skipulagsstigi með áætlanir um að hefja framleiðslu á komandi árum.
Þessi samantekt byggir á viðtölum við forsvarsmenn landeldisfyrirtækja og tæknifyrirtækja sem hafa verið í samstarfi við landeldið við uppbyggingu og þróun. Markmiðið með þessari samantekt var að meta stöðu greinarinnar með tilliti til stuðnings og þátttöku stjórnvalda og sveitarfélaga og samstarf klasa þeirra fyrirtækja sem starfa innan greinarinnar.
Niðurstöðurnar benda til þess að landeldi njóti víðtæks stuðnings á sveitarstjórnarstigi og að rekstrarumhverfi fyrirtækjanna sé fremur hagstætt. Hins vegar eru áskoranir enn til staðar, þá sérstaklega þegar kemur að orkuöflun, þróun mannauðs og innviðum.
Tækifæri til vaxtar og nýsköpunar
Ísland er í lykilstöðu til að verða leiðandi afl á heimsvísu í landeldi. Helsta samkeppnisforskot Íslands er meðal annars framboð á vatni og endurnýjanlegri orku og nálægð við evrópska og bandaríska markaði. Þetta skapar kjöraðstæður til þess að landeldi verði öflug útflutningsgrein hér á landi. Viðmælendur bentu á að Ísland hafi vakið athygli erlendra fjárfesta en að miklu leyti hafa innlendir fjárfestar leitt margar af stærstu fjárfestingum á þessu sviði. Þessa innlendu forystu í landeldi telja viðmælendur í hópi innlendra tæknifyrirtækja líklega skýringu á auknum áhuga landeldisfyrirtækja á samstarfi. Með slíku samstarfi landeldis og innlendra tæknifyrirtækja eflist innlend nýsköpun.
Augljóst tækifæri felst einnig í jarðhitanýtingu og aðgengi að ferskvatni. Fyrirtækin hafa verið áhugasöm um að tileinka sér nýja tækni eins og gervigreind, gæðakerfi og skynjara svo eitthvað sé nefnt. Með nýrri tækni og samstarfi við innlend og erlend tæknifyrirtæki er stefnt að hámarks nýtingu, aukinni arðsemi og bættri velferð fisksins. Söfnun og greining gagna er talin lykilatriði í þróun greinarinnar til næstu ára. Eitt fyrirtæki nefndi að landeldi á stærri mælikvarða væri enn á þróunarstigi (eða „fínstillingarstigi“ eins og viðkomandi orðaði það) þar sem hvert skref stuðlar að aukinni sameiginlegri þekkingu.
Svæðisbundin samstarfsverkefni eins og Ölfusklasinn endurspegla aukna samheldni greinarinnar og sameiginlega sýn á sjálfbærni. Þessi klasamódel gera fyrirtækjum kleift að deila gögnum og fjármagni til umhverfisvöktunar og rannsókna, og efla þannig nýsköpun sem gagnast öllum í greininni. Í samtölunum kom þó fram að fyrirtækin gætu átt nánara samstarf á ýmsum sviðum en áhugi á því væri misjafn. Með auknu samstarfi væri hægt að stuðla að enn meiri hagkvæmni í framleiðslu og sölu.
Staðsetning landeldisfyrirtækja í Ölfusi
Eins og algengt er með eldi þá hefur öll orka landeldisfyrirtækjanna farið í uppbygginguna og ræktunina og þar hafa nægar áskoranir verið. Þekking fyrirtækjanna í sölu og markaðsmálum fer vaxandi en að mati sumra viðmælenda mætti hún vera meiri. Þá hefur engin umræða virst hafa farið fram um mögulegt samstarf fyrirtækjanna um eitt íslenskt „brand“ eða eitt sölu- og markaðskerfi. Þarna virðist greinin feta sömu leið og sjóeldið og íslenskur sjávarútvegur sem heild þar sem mörg fyrirtækjanna vinna að eigin markaðs- og sölustarfi. Einn viðmælandi nefndi að mögulega ætti að horfa meira til árangurs Færeyinga í ímyndarvinnu á færeyskum laxi erlendis sem tekist hefur afar vel. Sjávarklasinn hefur talað fyrir auknu markaðssamstarfi í sjávarútvegi um árabil.
Regluverk, umhverfi og samfélagslegar áskoranir
Þrátt fyrir að viðmælendur hafi bent á margt jákvætt í umhverfi fyrirtækjanna voru einnig nefndar til sögunnar ýmsar áskoranir eins og flókið og óljóst leyfisferli sem dregur úr hraða og fyrirsjáanleika á uppbyggingarstigi. Margir töldu regluverkið bæði tímafrekt og kostnaðarsamt, og töluvert misræmi á milli ríkisstofnana. Einn viðmælandi nefndi dæmi um eftirlitsstofnun sem hefði ekki sýnt mikinn vilja til jákvæðs samstarfs sem hefði leitt til óþarfa tíma og kostnaðar í ferlinu.
Flestir viðurkenndu þó mikilvægi trausts regluverks, sérstaklega með tilliti til umhverfisáhrifa. Mikilvægt er að ferskvatn verði ekki mengað og að úrgangsstreymi sé meðhöndlað á ábyrgan hátt. Seyra var sérstaklega áberandi sem óleyst áskorun — hvorki innviðir né úrgangsmeðhöndlun duga til að mæta þörfum greinarinnar.
Sveitarfélög fengu hins vegar almennt góða umsögn fyrir frumkvæði og stuðning. Sérstaklega voru nefnd Vestmannaeyjar og Þorlákshöfn, þar sem sveitarstjórnir hafa stutt við uppbyggingu með því að auðvelda leyfisveitingar, aðgengi að landi og hafa verið almennt samvinnuþýð. Samfélagsleg viðhorf til landeldis virðast jákvæð, sérstaklega í samanburði við sjókvíeldi.
Orkuöflun og framtíðaróvissa
Aðgangur að orku er grunnforsenda í landeldi á laxi og öll fyrirtækin sögðu frá langtímasamningum við orkufyrirtæki á Íslandi. Þessir samningar stuðla að stöðugleika í rekstrinum og endurspegla sterkt samkeppnisforskot endurnýjanlegrar orku á Íslandi.
Hins vegar komu fram áhyggjur vegna orkuöflunar í náinni framtíð. Eins og margoft hefur komið fram fylgir orkuframleiðsla landsins ekki nægilega hratt vaxandi eftirspurn atvinnulífsins. Nokkur fyrirtæki óttast að orkuskortur eða forgangsröðun til hefðbundinnar stóriðju kunni að hægja á vexti landeldis. Margir töldu að landeldi skilaði meiri verðmætasköpun á hverja kílóvattsstund, auk fleiri starfa og verðmætari útflutnings. Einn viðmælandi benti á að mikilvægt væri fyrir stjórnvöld og orkufyrirtæki að leggja mat á efnahagsáhrif ólíkra atvinnugreina þegar ákveðið væri hvar áherslur í orkusölu eigi að liggja. Þar hefði landeldið með sína skýru sín á hreina framleiðslu, öflugt samstarf við
íslensk tæknifyrirtæki og stoðþjónustu, ásamt stefnu um fullnýtingu afurða, yfirburði yfir aðrar greinar.
Sum svæði voru einnig nefnd vegna veikburða orkudreifikerfis. Fulltrúi eins fyrirtækis benti á að ef til jarðhræringa kæmi væri hætt við að orkuinnviðir væru alls ekki undirbúnir fyrir slíkt. Þetta undirstrikar mikilvægi styrkingar og seiglu í orkuinnviðum — sérstaklega á svæðum þar sem vöxtur landeldis er fyrirhugaður.
Almennt voru fulltrúar fyrirtækjanna sáttir með samstarf við orkufyrirtækin en undirstrikuðu þó að erfitt væri fyrir orkufyrirtækin að gefa hástemmd loforð um orkusölu þegar óvissan væri enn jafn mikil og raun ber vitni.
Langtímaárangur
Til að tryggja langtímaárangur þarf samræmda sýn á milli ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífsins. Viðmælendur lögðu áherslu á að festa þurfi reglur og leyfisveitingar þurfi að vera í fastari skorðum til að draga úr áhættu fjárfesta. Fjárfesting í landeldi er gríðarleg og skortur á fyrirsjáanleika getur hamlað bæði innlendri og erlendri þátttöku.
Frekari uppbygging innviða var önnur áberandi áskorun sem viðmælendur bentu á. Þörf er á tvöföldun raflína og betri flutningsleiðum. Þá þarf að efla stoðgreinar eins og tæknifyrirtæki og verkfræðiþjónustu og hvers konar nýsköpun. Á sumum þessara stoðsviða er takmörkuð innlend þjónusta sem veldur því að flest fyrirtækin reiða sig í meira máli á innflutning.
Mannauður er einnig áskorun. Þörf er á fólki með tæknilega og verkfræðilega þekkingu og þekkingu í fiskifræði. Sum fyrirtæki bentu á að sjómenn og vélstjórar úr sjávarútvegi gætu verið verðmætir starfsmenn, ef unnt er að bjóða endurmenntun og markvissa þjálfun. Mikil áhersla var lögð á samstarf við háskóla og skóla á borð við Fisktækniskólann og Hóla.
Fulltrúar tæknifyrirtækja, sem rætt var við, töldu að landeldisfyrirtækin hefðu sýnt töluvert meiri áhuga á samstarfi við innlend tæknifyrirtæki en sjóeldisfyrirtækin. Vel getur verið að innlend þekking hafi aukist síðustu ár sem sé helsta skýringin á þessum mun. Hins vegar benda ýmis nýsköpunarfyrirtæki á að enn sé töluvert flóknara að koma á samstarfi við sjóeldið en landeldið.
Nýsköpun mun áfram gegna lykilhlutverki. Sérstaklega er brýnt að finna hagkvæmar lausnir í meðhöndlun á úrgangi og seyru. Í dag er staðan brotakennd, án sameiginlegra lausna eða miðlægra meðhöndlunarstöðva. Með þróun tæknilausna — til dæmis í formi virðisaukningar úr úrgangi — getur þessi áskorun orðið tækifæri, en það krefst samstarfs milli iðnaðar, stjórnvalda og rannsóknaaðila.
Niðurstaða
Landeldi á laxi á Íslandi hefur mikla möguleika. Hreint vatn, endurnýjanleg orka og stuðningur sveitarfélaga skapa traustan grunn að alþjóðlegri fyrirmynd í sjálfbæru fiskeldi. En til að raungera þetta þarf samhæfða stefnumótun á sviðum orkumála, regluverks og nýsköpunar. Eins og viðmælendur í þessari samantekt nefndu ítrekað hefur rekstrarumhverfi í uppbyggingarfasanum verið þeim að mörgu leyti hliðhollt. Þó eru tækifæri til að gera betur í tengslum við einföldun regluverks án þess þó að slaka á kröfum um umhverfisvernd. Þá er afar brýnt að hægt verði að tryggja þessum fyrirtækjum næga orku á næstu árum. Viðmælendur hnykktu á mikilvægi þess að horft verði til þeirra tækifæra sem Ísland hefur til að verða einn stærsti framleiðandi af hágæða fiskipróteinum i heiminum sem um leið eru með eitt lægsta kolefnisspor sem þekkist í matvælaframleiðslu; landeldi. Með markvissum fjárfestingum og aukinni samvinnu bæði innan greinarinnar og við aðra hagaðila getur Ísland orðið leiðandi í sjálfbæru landeldi á 21. öldinni.
Höfundar eru:
Þór Sigfússon
Jason Latina
Oddur Ísar Þórsson