FJÁRFESTINGAR HAFNA Á ÍSLANDI 2025 - 2040
Stefnumótandi greining og fjárfestingarmat
Þessi skýrsla greinir nýlegar fjárfestingar og áætlanir 21 hafnasjóða á Íslandi. Samanlögð velta þessara sjóða nemur um 94% af heildarveltu hafna á Íslandi. Skýrslan tekur fyrir þrjú tímabil: nýlegar fjárfestingar (2020–2024), áætlaðar framkvæmdir (2025–2030) og fyrirhugaðar framkvæmdir (2025–2040).
Hafnasjóðir fjárfestu samtals 27,4 milljörðum króna á árunum 2020–2024. Á árunum 2025 til 2030 gera sjóðirnir ráð fyrir að fjárfestingarþörf þeirra nemi 41,8 milljörðum sem jafngildir um 25% aukningu á ári.
Miðað við áætlanir sjóðanna um fjárfestingar til ársins 2040 standa þeir frammi fyrir fjárþörf sem nemur 100,7 milljörðum króna. Þessar áætlanir endurspegla metnað hafnanna til að mæta vexti í atvinnulífinu og orkuskipta- og loftslagsmarkmiðum landsins.
Nýlegar fjárfestingar sýna blandað fjármögnunarlíkan þar sem 74% var fjármagnað af hafnasjóðunum og 26% með opinberum framlögum. Þetta er þó mjög mismunandi eftir sjóðum: stærri hafnir búa við fjárhagslegt sjálfstæði á meðan minni hafnir á landsbyggðinni reiða sig meira á opinberan stuðning.
Samanburður á nýlegum fjárfestingum og áætlunum sýnir að nokkrir hafnasjóðir standa frammi fyrir umtalsverðri fjárfestingarþörf. Þá er forgangsröðun framkvæmda að færast frá hefðbundnum endurbótum yfir í rafvæðingu og aukna afkastagetu.
Stærri sjóðir eiga mest megnis að geta fjármagnað viðhald og nýframkvæmdir með eigin tekjum, en minni sjóðir með takmarkaðar tekjur þurfa á auknum ytri stuðningi að halda. Þetta undirstrikar þörfina fyrir mismunandi nálganir sem taka mið af fjárhagslegri getu hafnasjóðanna. Gera þarf stærri sjóðum kleift að viðhalda eigin getu til fjárfestinga, á meðan minni sjóðir þurfa aukinn stuðning. Þannig má halda úti heildstæðu hafnaneti og uppbyggingu atvinnulífs um allt land.