Hinn 20. nóvember sl. var stofnaður í Kaupmannahöfn samstarfsvettvangur sjávarklasa við Norður Atlantshaf en frumkvæðið að stofnun þessa vettvangs kom frá Íslenska sjávarklasanum. Í samstarfsvettvangnum eru klasar eða samtök frá Noregi, Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Danmörku og Nýfundnalandi.
Samstarfsvettvangurinn hefur fengið heitið North Atlantic Ocean Cluster Alliance (NOACA) en í samstarfssamingi kemur fram að Ísland muni leiða samstarfið. Lönd þessi eiga það sammerkt að eiga mikið undir haftengdum greinum en tilgangur samstarfsins er að ýta undir vöxt og þróun með auknu alþjóðlegu samstarfi milli sjávarklasa. Þannig er ætlunin að skapa vettvang þar sem hægt er að deila þekkingu og efla samstarf í sjávarútvegi eða annarri haftengdri starfsemi.
Nú þegar hafa nokkur verkefni verið sett af stað í þessu samstarfi. Má þar nefna samstarf tæknifyrirtækja sem bjóða umhverfisvæna tækni fyrir haftengda starfsemi, stofnun klasa á Grænlandi og í Færeyjum, samstarf um aukna fullvinnslu aukaafurða í sjávarútvegi, kortlagning flutninganetsins á Norður Atlantshafi og samstarf um að auka áhuga ungs fólks á haftengdri starfsemi.
Verkefnið er tilkomið að frumkvæði Íslenska sjávarklasans og er styrkt af NORA og Nordic Innovation.

Á myndinni eru frá vinstri Tonnes Kaka Berthelsen frá KNAPK á Grænlandi, Þór Sigfússon framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans, Steen Sabinsky framkvæmdastjóri Maritime Development Center of Europe,
Olav Bardalen yfirmaður klasastarfsemi hjá Innovation Norway og Niels Winther ráðgjafi hjá Vinnuhúsinu í Færeyjum við undirritun samningsins í höfuðstöðvum Samtaka skipaútgerða í Danmörku.