Þótt margt hafi áunnist og í raun orðið bylting í nýtingu á hliðarafurðum í sjávarútvegi og tæknifyrirtækjum sem tengjast greininni vaxið ásmegin er enn er mikið verk óunnið. Fjölmörg tækifæri liggja í manneldisvinnslu á uppsjávarfiski og í framtíðinni væri hægt að markaðssetja 300 gramma pakkningar af neyslufisk beint inn á veitingastaði og jafnvel heimili erlendis, svo dæmi séu tekin. Þetta er meðal þess sem Þór Sigfússon, stofnandi og framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans, sér sem framtíðarviðfangsefni í sjávarútvegi.
GUÐJÓN GUÐMUNDSSON
gugu@fiskifrettir.is
Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því Þór stofnaði Íslenska sjávarklasann vorið 2011 og fyrirtækið hóf starfsemi ári síðar á Grandagarði 16. Í upphafi voru í húsinu átta fyrirtæki en nú eru þau orðin 64. Fjöldi fyrirtækja er á biðlisti sem eru áhugasöm um að starfa innan klasans.
Opin hugmyndaverksmiðja
„Hugmyndin að Sjávarklasanum kom til mín árið 2010. Í raun eru ekki til klasar af svipuðu tagi í kringum sjávarútveg. Ólíkt Íslendingum gengur mörgum löndum erfiðlega að vinna saman í grundvallar atvinnugreinunum. Oftast verða klasar til í kringum hátækniiðnað. Mörgum þykir sem sjávarútvegurinn sé deyjandi grein en við gerðum okkur grein fyrir því að hann yrði okkar sérsvið. Ísland er í fararbroddi á mörgum sviðum sem tengjast sjávarútvegi. Engu að síður var viðhorf vel menntaðs fólks það að sjávarútvegurinn væri góð undirstöðugrein en hann kæmi ekki til með að skapa störf. Þeim myndi fækka og betra væri að snúa sér að einhverju allt öðru. Við höfum einmitt verið að reyna að breyta þessu viðhorfi. Eitt stærsta verkefni okkar hefur verið að sýna ungu fólki hvaða tækifæri geta verið í sjávarútvegi ef það sjálft sýnir greininni áhuga. Við finnum fyrir miklum meðbyr í þeim efnum. Fyrir skemmstu kom hingað í heimsókn 400 grunnskólabörn. Þau litu inn í eitt verkfræðifyrirtæki hérna þar sem sat maður og hannaði skip í tölvu. Þau sáu tískufatnað sem gerður er úr fiskroði og þau sáu líka heilsu- og snyrtivörur sem gerðar eru úr aukaafurðum fisks. Við viljum halda þessu opnu og við viljum að unga fólkið skynji þann fjölda verkefna sem bíða okkar,“ segir Þór.
300 gr pakkningar beint til neytenda
Störfum hefur farið fækkandi í hefðbundnum sjávarútvegi, jafnt vegna aukinnar tækni og sjálfvirkni. Um leið hefur verðmætasköpunin aukist. Það sem hefur gerst samhliða þessu er að fjöldi nýrra fyrirtækja og starfa hafa orðið til í hliðargreinum, ekki síst hjá tæknifyrirtækjum og fyrirtækjum sem vinna verðmætar afurðir úr hráefni sem áður var jafnvel alls ekki nýtt. Þór segir að þessum störfum muni áfram fjölga mjög hratt.
„Ef við höldum áfram þá leið sem við virðumst vera á, sem er að komast beint og milliliðalaust inn á smásölumarkaðinn, eru tækifærin óþrjótandi. Þá er ég að tala um að pakka hér í 300 gramma pakkningar og senda vörurnar jafnvel beint inn á heimili eða veitingastaði í Bandaríkjunum. Tækifæri liggja í markaðssetningu, sölu, vöruhönnun og öðrum tengdum greinum. Við sjáum að þetta er eitt af þessum stóru framtíðarmálum sem kann jafnvel að gerast mun hraðar en við áttum okkur á. Margar útgerðir hafa áhuga á því að kanna það með skipulegum hætti að fara meira út í framleiðslu í neytendaumbúðir. En ég hef lagt áherslu á það að til þess að komast þangað þurfum við að standa okkur vel á heimamarkaði þótt lítill sé. Þar er ennþá verk að vinna. Það þarf að koma framleiðslunni í það horf að íslensk heimili fái fisk í stórmarkaði eða lágvöruverslunum sem, auk þess að vera góð matvara, er framúrskarandi hönnun og flott vara.“
Þór segir heilmikið í gangi í þessa veru. Fyrirtæki hafi orðið til sem eru að skoða sig um á þessum markaði og að þróa vörur fyrir verslanir. Einnig hafi orðið til fyrirtæki sem þrói vörur úr sjávarafurðum fyrir snyrti- og heilsuvörumarkaðinn. Þetta eru vörur sem eru vel hannaðar og ígrundaðar. Íslendingar séu því á þeirri vegferð að vera betur búnir undir að fara út á alþjóðamarkað með þessa hugsun í farteskinu.
Manneldisnýting á uppsjávarfiski og Marel lyfjaiðnaðarins
„Sjálfur er ég mjög spenntur fyrir þeirri þróun sem á eftir að verða í tengslum við vinnslu á uppsjávarfiski. Það er ekki svo langt síðan að Íslendingar bræddu allan uppsjávarfisk. Síðan var farið að frysta hann og í framtíðinni má búast við niðurlagningu á honum og vinnslu á honum í olíu til manneldis. Þar er um að ræða allt annað og hærra verð fyrir afurðirnar og magnið getur orðið gríðarlega mikið. Nú eru sprotafyrirtæki að skoða meðal annars undirbúning á framleiðslu á lýsi úr uppsjávarfiski. Þarna og miklu víðar liggja fjölmörg önnur tækifæri.“
Þór segist einnig hafa mikla trú á því að á næstu árum geti sprotar sem nýta sjávarafurðir til að þróa lyfjavörur eða heilsuefni orðið okkar næsta Marel. „Við eigum að sækjast eftir því að fá erlend líftæknifyrirtæki og sérhæfða erlenda fjárfesta í lið með okkur til að efla líftæknihluta sjávarklasans enn frekar hérlendis. Þessir aðilar koma með þekkingu og tengslanet sem okkur Íslendinga skortir í þessum hluta sjávarklasans.“
Sem fyrr segir voru upphaflega átta fyrirtæki innan Íslenska sjávarklasans, þar á meðal 3X, Polar og Thorice. Þór segir að menn hafi áttað sig á því að klasasamstarfið virki eins og sjávarútvegssýning sem er opin allan ársins hring. Menn eigi kannski erindi við eitt fyrirtæki innan klasans en áður en dagurinn er liðinn hafi þeir sest á rökstóla með fulltrúum fjölda annarra fyrirtækja innan klasans. Hvert fyrirtæki virki eins og segull fyrir það það næsta.
„Við leggjum áherslu á það að í húsinu sé að stærstum hluta athafnafólk sem þróar hugmyndir sínar í samtali við aðra. Það eru fleiri dæmi um það en ég sjálfur þekki, að hugmyndir hafi þróast í allt aðrar áttir en upphaflega var ætlað í samstarfinu sem verður til hér innanhúss.“
Nærumhverfið eflist
Sjávarklasinn er uppbyggður af litlum skrifstofum sem virka frekar eins og kynningar- eða söluskrifstofur frekar en að þar séu fyrir heilu framleiðslufyrirtækin. Þór segir að það sé að vissu leyti rétt en mörg hver hafa sett upp framleiðslu í húsnæði í næsta nágrenni við Sjávarklasann. Gott dæmi um þetta er Thorice, sem er í næsta húsi við Sjávarklasann.
„Það gerist gjarnan þegar fyrirtæki mynda klasa af þessu tagi að umhverfið allt í kring eflist. Það er okkur líka mjög þýðingarmikið að vera svo nærri höfninni. Hér geta forsvarsmenn tæknifyrirtækja t.a.m. bent á skip úti á höfninni og sagt að það sé með vindubúnað frá sér, svo dæmi sé tekið. Húsið hefur mjög sterk tengsli við sitt nærumhverfi.“
Eins og staðan er núna komast ekki fleiri fyrirtæki að í Íslenska sjávarklasanum og nokkur fyrirtæki eru á biðlista. Stækkunarmöguleikar eru ekki miklir en Þór bendir á að verið sé að taka í notkun hluta af neðri hæð hússins. Þar verður um nokkurs konar fiskihöll að ræða þar sem sjávarútvegsfyrirtæki kynna vörur sínar og veitingaaðstaða verður fyrir hendi.
Sjávarklasi í Maine opnar leiðir
„Það koma hingað útlendingar í stríðum straumum. Það var kanadískur hópur hérna í gær og í næstu viku kemur norskur hópur. Þetta er fólk sem er sérhæft í sjávarútvegi. Við teljum að þetta hús, þegar allri uppbyggingu er lokið, verði nokkurs konar Silicon-dalur sjávarútvegsins í heiminum. Hér eiga menn að geta séð úti á höfninni best búnu skip í heimi sem byggja á íslenskri tækniþróun að stórum hluta. Inni í húsinu eru fyrirtæki að vinna vörur úr fiskinum, oft úr afurðum sem er hent í öðrum löndum.“
Starfsemi Íslenska sjávarklasans hefur spurst út til annarra landa og reglulega koma fyrirspurnir erlendis frá hvort hægt sé að gera svipaða hluti í öðrum höfnum.
„Við erum komin lengst með uppbyggingu á sjávarklasa í borginni Portland í Maine-ríki í Bandaríkjunum. Þar tel ég mikil tækifæri framundan. Við erum að fara út núna að skoða hús undir starfsemina. Við erum því að sjá þessa hugmyndafræði teygja anga sína. Kosturinn við það að koma upp fleiri sjávarklösum víða um heim er sá að þá getum við boðið íslensku athafnafólki tímabundna aðstöðu í þessum húsum. Við erum með öðrum orðum að lækka viðskiptakostnaðinn með klasa, góðu skipulagi og vörugeymslum. Nú þegar hafa nokkur bandarísk fyrirtæki prófað þessa nálgun með því að hafa tímabundið aðsetur hér á Grandagarði. Við sjáum að samlegðaráhrif af þessu tagi geti orðið gríðarleg á milli húsanna.“
Uppbygging sjávarklasans í Portland er í samstarfi Íslenska sjávarklasans, bandarískra fjárfesta og athafnafólks í borginni. Aðkoma Íslenska sjávarklasans er sú þekking og tengslanet sem klasinn býr yfir og sú þekking að koma svona starfsemi af stað og reka hana. Íslenski sjávarklasinn verður þriðjungseigandi að sjávarklasanum í Portland.
„Ég er alltaf að bíða eftir því að athafnafólk frá öðrum löndum komi hingað. Hingað kemur margt gott fólk úr opinbera geiranum sem hefur áhuga fyrir málinu. En til þess að koma verkefnum af þessu tagi í það form sem ég hef trú á þarf aðkomu fjárfesta og athafnafólks sem vill drífa málin áfram. Það er mjög mikilvægt að Sjávarklasar séu einskonar verksmiðjur sem framleiða hugmyndir og ný fyrirtæki. Það gerist fyrst og fremst með samstarfi fyrirtækja, frumkvöðla og fjárfesta.“
Viðtalið birtist fyrst í tímariti Fiskifrétta í nóvember 2015.