„Mér finnst staðsetningin hér úti á Granda vera kjörin og það er bersýnilega mjög skemmtileg uppbygging hér í hverfinu, en á Hlemmi eru líka ákveðin tækifæri og það má vel sjá fyrir sér einhvers konar markað þar eða mathöll í framtíðinni“ sagði Niels. L. Brandt um hugmyndir að opnun matarhalla (e. food hall) og matarmarkaða í Reykjavík.
Niels stjórnar Torvehallerne í Kaupmannahöfn og býr að áratuga reynslu í smásölu matvæla og uppbyggingu og stjórnun matarmarkaða og sælkeraverslana með matvæli. Hann hélt fyrirlestur í Húsi sjávarklasans fyrir skemmstu þar sem hann sagði frá reynslu sinni við uppbyggingu og stjórnun Torvehallerne og hvernig hann sér framtíð slíkra markaða.
Í fyrirlestrinum lagði Niels höfuðáherslu á að fara ekki fram úr sér í uppbyggingaráformunum, kosta ekki of miklu í upphafi og búa til vöru sem hentaði neytendum. „Matarmarkaðurinn er ekki nýtt fyrirbæri, við erum ekki að finna neitt upp, þetta er aldagömul aðferð til að versla og hún er í mikilli sókn núna vegna þeirra kosta sem hún hefur fram yfir hefðbundnar verslanir. Þjónustan, ferskleikinn og sérvaran er eitthvað sem verslunarkeðjurnar geta ekki keppt við af ýmsum ástæðum, þó margar verslunarkeðjur séu að þróast og gera fína hluti líka. En mathallir og markaðir eiga eftir að halda áfram að sækja í sig veðrið hjá nýrri kynslóð upplýstra neytenda, ég er viss um það,“ bætti Niels við.
Niels heimsótti Ísland í boði Íslenska sjávarklasans til að kynna sér áform fyrirtækisins um opnun Bakkaskemmu – Reykjavík Seafood Hall á neðri hæð Húss sjávarklasans.