Í morgun komu til fundar í Húsi sjávarklasans 25 sérfræðingar úr atvinnulífinu, stjórnsýslunni og háskólasamfélaginu sem sérþekkingu hafa á ýmsum sviðum sjávarútvegs, stjórnunar og hafrannsókna. Boðað var til fundarins að frumkvæði Íslenska sjávarklasans og hugmyndir reifaðar um að stofna burðugt ráðgjafafyrirtæki í alþjóðlegri ráðgjöf til fyrirtækja, stjórnvalda og alþjóðlegra stofnana á sviði haf- og sjávarútvegsmála.
Íslendingar hafa á sér gott orð víða um heim á sviðum haf- og sjávarútvegsmála. Hugmyndin er að byggja á þessu góða orðspori og víðfeðmri þekkingu fjölda íslenskra sérfræðinga á þessu sviði. Næstu skref eru að halda samtalinu áfram og móta hóp sem áhuga hefur á framhaldi verkefnisins, en á fundinn kom fram skýr vilji til þess. Samstarf af þessu tagi hefur reynst Íslenska sjávarklasanum afar verðmætt á undanförnum árum og þegar getið af sér nokkur samstarfsverkefni fyrirtækja og nokkur öflug nýsköpunarfyrirtæki.