Hugbúnaðarfyrirtækið LearnCove hefur tryggt sér 130 milljón króna fjármögnun til þess að efla vöxt fræðslu- og þjálfunarkerfis síns hér heima og erlendis. Fjárfestingarsjóðurinn InfoCapital og Hilmar Veigar Pétursson forstjóri CCP Games voru þegar í hópi hluthafa og juku sinn hlut en fjárfestingarsjóður Útgerðarfélags Reykjavíkur kom nýr inn í hluthafahópinn.
LearnCove er notað af fjölbreyttum hópi fræðsluaðila, fyrirtækja, sveitarfélaga, skóla og stofnana hér heima og erlendis til miðlunar námskeiða og ferla. Hugbúnaðurinn er þróaður sem alþjóðlegt fræðslukerfi og býður upp á sjálfvirkan tungumálastuðning á 136 tungumálum.
Sem dæmi um fyrirtæki og opinbera aðila sem nota LearnCove má nefna Brim, Síldarvinnsluna, Orkuna, Garra, Vinnumálastofnun, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Félagsmálaráðuneytið, Mosfellsbæ og Hafnarfjarðarkaupstað.
Aðalheiður Hreinsdóttir, ein stofnenda og framkvæmdastjóri LearnCove um vöxt fyrirtækisins og hlutafjáraukninguna :
“Undanfarið ár hefur verið hálfgert ævintýri þar sem viðskiptavinahópurinn okkar fjórfaldaðist. LearnCove er núna í notkun meðal stærstu fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana landsins auk þess sem erlendum viðskiptavinum fjölgar.”
Aðalheiður segir hraða fjölgun viðskiptavina kalla á stækkun teymisins á næstunni. ”Ég er mjög stolt af teyminu sem kom okkur hingað og það stefnir allt í að starfsmannafjöldi okkar muni tvöfaldast á næstu tveimur árum.”
Um nýafstaðna hlutafjáraukningu segir Aðalheiður : “Fyrir utan öflugt teymi þá höfum við fengið með okkur einvala lið fjárfesta með mikla reynslu og árangur í að byggja upp sterk alþjóðleg fyrirtæki eins og Credit Info og CCP Games. Ráðgjöf þeirra og leiðbeiningar hafa reynst ómetanlegar fyrir okkar vöxt og uppbyggingu fyrirtækisins.
LearnCove er notað af nokkrum stórum sjávarútvegsfyrirtækjum og því sérstaklega gleðilegt líka að fá nýsköpunarsjóð Útgerðarfélags Reykjavíkur inn í hluthafahópinn”
Um nútímavæðingu í atvinnulífinu og sóknarfæri LearnCove á erlendum mörkuðum segir Aðalheiður “Framtíðin í menntun starfsfólks felst í að gera fyrirtækjum kleift að mæta ólíkum fræðsluþörfum starfsmanna sinna á rekjanlegan hátt sem eykur skilvirkni og sparar tíma. Það er ekki nóg að hafa mikið magn af góðri þjálfun á miðlægu svæði heldur þurfa stjórnendur að geta miðlað viðeigandi þjálfun og ferlum og haft skýra yfirsýn yfir sína starfsmenn. Fræðsla er lykilþáttur í eflingu mannauðs fyrirtækja og með LearnCove geta stjórnendur ekki bara búið til heildstæðar fræðsluáætlanir heldur fylgst með framvindu þeirra”.
LearnCove er að festa sig í sessi sem sem þjálfunar- og fræðslukerfi sjávarútvegsins og er í notkun m.a. hjá stórum sjávarútvegsfyrirtækjum eins og Brim, Síldarvinnslunni og Útgerðarfélagi Reykjavíkur ásamt fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi í Grænlandi og Grikklandi.
“Okkar fyrsti markaðsfókus þegar við sækjum á nýjan markað er sjávarútvegurinn. Við erum hluti af Sjávarklasanum sem er að opna margar dyr fyrir okkur í erlendri sókn. Okkar sérstaða liggur í því að við gerum kleift fyrir fræðsluaðila, tækjaframleiðendur, eftirlitsaðila og sjávarútvegsfyrirtæki að tengja kerfin sín saman til samstarfs. Auk þess erum við að halda utan um hvenær þjálfun eða ferli áttu sér stað fyrir vottunaraðila sem taka út gæða-, hreinlætis- og öryggismál sjávarútvegsfyrirtækja.”
Sjávarklasinn vill óska LearnCove innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur!