Íslensk fyrirtæki í haftengdri starfsemi bjóða upp á endalausa möguleika varðandi þróun og atvinnutækifæri enda mörg hver á heimsmælikvarða. Sjávarútvegur hefur alla tíð verið grunnstoð atvinnulífs á Íslandi og á þessum grunni hafa fyrirtækin sprottið. Það þekkja allir stór fyrirtæki á borð við Marel sem er leiðandi á alþjóðamarkaði í þróun hátæknibúnaðar fyrir matvælaiðnað en Marel hóf starfsemi sína með framleiðslu voga til að auka framleiðni og skilvirkni í fiskvinnslu. Hér á landi eru fjölmörg minni fyrirtæki með mikla vaxtarmöguleika sem bjóða upp á sérhæfða þjónustu við greinina og það ætti því ekkert að aftra okkur frá því að standa enn framar á meðal þjóða í haftengdri þjónustu. En rétt eins og planta þarf nægt ljós, rétt rakastig og hita til að blómstra þarf að búa þessum fyrirtækjum heppilegt umhverfi svo þau geti vaxið og verið samkeppnishæf á alþjóðamarkaði. Það þarf að stuðla að nýsköpun, rannsóknum og þróun og skapa fyrirtækjum ný tækifæri til útrásar. Sameiginlega markmiðið ætti að vera að „Ísland“ sé það fyrsta sem kemur í huga þeirra sem leita sér lausna í haftengdri starfsemi en þessi sýn verður þó aldrei annað en fallegur draumur ef allir sitja hver í sínu horni.
Á hátæknisvæðinu Kísildal í Bandaríkjunum safnast saman fyrirtæki í tæknigeiranum og mynda eina öflugustu og þekktustu þekkingarþyrpingu heimsins. Með myndun slíks klasa af fyrirtækjum sameinast gífurleg kunnátta og þekking fagfólks í greininni. Í þessu samhengi má einnig nefna Hollywood þar sem bandarísk kvikmyndafyrirtæki safnast og er nú miðstöð kvikmyndagerðar þar í landi. Þetta er þróun sem fyrirtæki í haftengdri starfsemi á Íslandi mega taka til fyrirmyndar. Hefja þarf markvisst starf sem stuðlar að auknum samskiptum og samvinnu í greininni. Þannig búum við til frjótt umhverfi til þróunar þeirra glæsilegu fyrirtækja sem við eigum. Þau verða samkeppnishæfari, þekkingin eykst og nýting upplýsinga verður betri.
Með stofnun Íslenska sjávarklasans var stórt skref stigið í þessa átt en hann hefur það að markmiði að auka verðmæti og efla skilning á mikilvægi haftengdrar starfsemi á Íslandi. Þar vinna saman fyrirtæki í greinum eins og sjávarútvegi, rannsóknum og nýsköpun, líftækni og hátækniframleiðslu, flutningum og fjármálum. Þessir aðilar sjá óumdeildan styrk í stærðinni sem felst í slíku samstarfi. Auðveldara verður að hafa skýra framtíðarsýn sem heild, nýta getu hver annars og hafa sameiginlega ábyrgð á framvindu klasans.
Meðal þeirra verkefna sem Íslenski sjávarklasinn vinnur að er stofnun fullvinnsluverksmiðjunnar Codland sem er ætlað að verða leiðandi í rannsóknum, þróun og ráðgjöf í fullvinnslu á þorski á alþjóðavísu. Íslendingar eru meðal fremstu þjóða í fullvinnslu sjávarafurða og standa nágrannaþjóðum sínum miklu framar í þeim efnum en betur má ef duga skal og með tilkomu Codland stendur til að styrkja Ísland sem forystuþjóð á því sviði. Þá vinnur Sjávarklasinn að skýrslu þar sem m.a. verður greint frá áætluðu magni þorsks sem fer til spillis árlega í Norður-Atlantshafi. Í því samhengi verður nýting aukaafurða skoðuð þ.e. það magn sem fer í framleiðslu á móti því sem fer í urðun. Þar gætu leynst tækifæri til innflutnings á hráefni til fullvinnslu á Íslandi og vinnur Sjávarklasinn samhliða fyrrnefndum verkefnum að samstarfi flutningsfyrirtækja og íslenskra fullvinnslufyrirtækja með þær hugmyndir. Einnig er kortlagning á skipakomum til landsins komin vel á veg með það að markmiði að markaðssetja íslensk tæknifyrirtæki í haftengdri starfsemi og auka viðskipti þeirra við erlend skip sem hingað koma. Loks hefur menntahópur Sjávarklasans unnið gott starf sem miðar að eflingu menntunar, áhuga og skilnings á haftengdri starfsemi á öllum stigum skólakerfisins og eru margar hugmyndir á teikniborðinu.
Stórstígar framfarir hafa átt sér stað í haftengdri starfsemi á Íslandi en sóknarfærin eru enn á hverju strái. Íslendingar þurfa að lyfta umræðu um sjávarútveginn upp á hærra plan, hætta skylmingum um þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og auka verðmæti sjávarfangsins með frekara samstarfi haftengdra fyrirtækja og sameiginlegri þróunarvinnu. Möguleikar í frekari þróunarvinnu og þjónustu bjóða upp á fjölmörg atvinnutækifæri og fjárfestingarmöguleika og ætti því að vera okkur kappsmál að vinna saman að því að gera Ísland að þekkingarsetri haftengdrar starfsemi á alþjóðavísu.
Höfundur: Sigurður Logi Snæland.
Ofangreind grein var birt í Morgunblaðinu þann 6.júlí, áskrifendur Morgunblaðsins geta nálgast rafrænt eintak af blaðinu hér.