Í dag birtist stuttur pistill ef Þór Sigfússon stofnanda Sjávarklasans í Morgunblaðinu þar sem hann segir m.a: „Ef rétt er á málum haldið kann að vera að allt að helmingur veltu bláa hagkerfisins sé lítið eða ekkert tengdur hefðbundnum veiðum innan 20 ára.“
Pistillinn í heild sinni er svohljóðandi:
Bróðurpartur veltu bláa hagkerfisins í dag er tengdur hefðbundnum veiðum. Ef rétt er á málum haldið kann að vera að allt að helmingur veltu bláa hagkerfisins sé lítið eða ekkert tengdur hefðbundnum veiðum innan 20 ára. Nýjar atvinnugreinar, sem nýta auðlindir landhelgi okkar, munu skjóta enn frekar rótum og geta orðið fyrirferðarmiklar á komandi árum.
Tækifærin liggja m.a. í aukinni fiskirækt, líftækni, fullvinnslu aukaafurða, tækniþróun tengdri umhverfismálum, skipahönnun og vinnslu, aukinni markaðssetningu með íslenskar sjávarafurðir erlendis, vaxandi stofnum nýrra veiðitegunda við Ísland eins og skelfiski og nýtingu þara og ræktun þörunga svo eitthvað sé nefnt.
Fjöldi stofnana og félagasamtaka hefur stuðlað að því á síðustu árum að mun meiri umræða fer nú fram um tækifærin í bláa hagkerfinu og margt hefur áunnist í verðmætasköpun. Á komandi árum þurfa þessir aðilar að efla samstarf sín í milli til að vinna að framgangi bláa hagkerfisins. Þrátt fyrir gott starf hefur ekki tekist nægilega vel að kynda undir áhuga nýrra kynslóða Íslendinga á þeim tækifærum sem við sjáum í hafinu.
Við Íslendingar eigum að ávinna okkur traust sem forystuland í nýsköpun og umhverfisvernd á hafinu. Þá þurfum við að muna að langflest öflugustu fyrirtækin sem tengjast bláa hagkerfinu hafa orðið til að hluta eða öllu í samstarfi við rannsóknarteymi í háskólum, Matís eða Hafró. Efla þarf þessar stofnanir. Þá þarf að styrkja enn frekar samkeppnissjóði og efla nýsköpunar- og frumkvöðlaumhverfið hérlendis.
Árið 2020 getur orðið árið sem lagði grunninn að markvissari stefnu og samstarfi um bláa hagkerfið á Íslandi.