Berta Daníelsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans. Berta hefur gegnt ýmsum ábyrgðarstörfum fyrir Marel síðastliðin 18 ár og nú síðast sem rekstrarstjóri Marel í Seattle í Bandaríkjunum. Berta er með meistaragráðu í stjórnun alþjóðlegra fyrirtækja frá Háskólanum á Akureyri. Hún er ein af stofnendum félagsins Konur í sjávarútvegi.
Berta tekur við starfinu hinn 15. nóvember næstkomandi af Þór Sigfússyni stofnanda og eiganda Íslenska sjávarklasans. Þór mun starfa áfram að nýsköpunarverkefnum sem klasinn hefur sett á laggirnar ásamt því að vera áfram stjórnarformaður.
Berta segir að hún sé afar spennt fyrir starfinu og möguleikunum sem Íslenski sjávarklasinn hefur að bjóða samstarfsfyrirtækjum sínum og viðskiptavinum. „Það liggja mikil tækifæri í framtíðinni og krafturinn í nýsköpuninni hér á landi er heillandi, segir Berta. „Þór hefur lagt grunninn að Sjávarklasanum síðastliðinn 5 ár og mörg ný fyrirtæki og verkefni hafa litið dagsins ljós sem braggast vel í dag.“
„Ég starfaði hjá Marel í 18 ár sem eitt sinn var lítil hugmynd og verkefni nokkurra háskólanema. Marel er leiðandi fyrirtæki í vinnslu á matvælum á heimsvísu og ég efast ekki um að á meðal samfélagsins í sjávarklasanum eru fleiri Marel að taka sín fyrstu skref. Ég hef mikla ástríðu fyrir nýsköpun og árangri og vonast til að reynsla mín frá Marel muni nýtast vel á nýjum vettvangi“ segir Berta.
Nánari upplýsingar veitir Berta Daníelsdóttir í síma 698 6200.