Þau sem hlutu viðurkenningarnar eiga það sameiginlegt að hafa stuðlað að öflugra samstarfi fólks innan sjávarklasans á Íslandi og stuðlað að aukinni verðmætasköpun í frumkvöðlasamfélaginu.
Viðurkenningar hlutu:
Björgólfur Hávarðsson er verkefnastjóri hjá Seafood Innovation Cluster í Noregi. Björgólfur hefur um árabil verið ötull áhugamaður um aukin tengsl á milli frumkvöðla í Noregi og Íslandi og liðsinnt ófáum nýsköpunarfyrirtækjum í Sjávarklasanum að efla sín tengsl í Noregi.
Eydís Mary Jónsdóttir umhverfis- og auðlindafræðingur og einn af stofnendum nýsköpunarfyrirtækisins Zeto fær viðurkenningu Sjávarklasans fyrir ötult starf við að efla áhuga og samstarf í tengslum við nýtingu hérlendis. Hún er jafnframt einn höfunda bókarinnar Íslenskir matþörungar.
Hrund Gunnsteinsdóttir er framkvæmdastjóri Festu. Hrund hefur verið óþreytandi við að efla umræðu og koma af stað margháttuðu samstarfi fólks og fyrirtækja um sjálfbærni á Íslandi. Fyrirtæki innan Sjávarklasans hafa notið þessarar forystu Hrundar með ýmsum hætti.
Sæplast hlaut viðurkenningu fyrir að hafa liðsinnt mörgum nemendum og minni fyrirtækjum, sem hafa sýnt áhuga á að endurnýta plast og framleiða ýmsa nytjahluti. Áhugi fyrirtækja innan Sjávarklasans eins og Sæplasts fyrir því að auka veg endurvinnslu og liðsinna frumkvöðlum er grundvöllur velgengni margra sprota í Sjávarklasanum.
Á myndinni eru frá vinstri Þór Sigfússon, Eydís Mary Jónsdóttir, Svavar Hávarðsson (sem tók við viðurkenningu fyrir hönd Björgólfs), Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Arnar Snorrason frá Sæplasti og Sif Gunnsteinsdóttir (sem tók við fyrir hönd Hrundar).