Aurora Seafood ehf er íslenskt frumkvöðlafyrirtæki í sjávarútvegi sem hlaut í dag styrk að upphæð 1,7 milljónir evra úr H2020 áætlun Evrópusambandsins sem nefnist SME Instrument. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt frumkvöðlafyrirtæki í sjávarútvegi hlýtur svo háan styrk en honum verður varið til að þróa og tæknivæða veiðar og vinnslu á sæbjúgum. Styrkurinn er einnig mikilvægt skref í þá átt að hefja vistvænar veiðar á sæbjúgum víðsvegar um Evrópu. Davíð Freyr Jónsson framkvæmdastjóri Aurora Seafood segir að félagið hafi lagt áherslu á þróa frekar veiðar og vinnslu á sæbjúgum, en Íslendingar eru eina þjóðin í Evrópu um sinn sem stundar nýtingu á sæbjúgum af krafti.
Það voru íslenska ráðgjafafyrirtækið Evris ehf. og spænska fyrirtækið Inspiralia sem undirbjuggu styrkumsókn með Aurora Seafood ehf. til Evrópusambandsins. SME Instrument er tveggja þrepa umsóknaferli en árangur Aurora Seafood ehf. er einstakur því umsóknir fyrirtækisins hlutu brautargengi í fyrstu atrennu í báðum þrepum. Því liðu aðeins níu mánuðir frá því að umsókn um fyrsta þrep var send inn þar til hinn stóri styrkur var í höfn.
Aurora Seafood ehf. og Evris ehf. eru bæði með aðsetur í Íslenska sjávarklasnum og gott dæmi um hið gróskumikla samstarf sem þar fer fram.
Nánari upplýsingar veita:
Davíð Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri Aurora Seafood ehf. sími 864 4949
Anna Margrét Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Evris ehf. sími 694 3774
Íslenski sjávarklasinn óskar Aurora Seafood, Evris og Inspiralia til hamingju með árangurinn.