Þessa dagana er hér á landi 18 manna hópur frá nokkrum bolfiskvinnsluhúsum á Nýfundalandi. Erindið er að kynna sér nýjungar í tækni og meðhöndlun á bolfiski, allt frá veiði og þar til að afurðin er afhent til flutnings á erlenda markaði.
Þessi heimsókn kemur í kjölfar þátttöku Íslenska sjávarklasans á ráðstefnu í St. Johns í Kanada haustið 2013 en eitt hlutdeildarfélaga Íslenska sjávarklasans, Ocean Excellence, vinnur að kynningu og sölu á íslenskri vinnslutækni þar sem byggt er á þeirri fullvinnsluhugsun sem klasinn hefur kynnt undir kjörorðinu „turning waste into value“.
Kanadamenn líta mjög til íslenskra fyrirtækja sem fyrirmyndar þegar að því kemur að endurbyggja kanadíska bolfiskvinnslu á næstu árum, en væntingar eru til vaxandi þorskgengdar við austurströnd Kanada og talið að innan fárra ára geti veiði þar orðið allveruleg á ný.
Hópurinn hittir meðal annarra mörg fyrirtæki í samstarfsneti Íslenska sjávarklasans, bæði á kynningarfundum hér í Húsi sjávarklasans og eins í heimsóknum til fiskvinnsla og tæknifyrirtækja.
Nánari upplýsingar veitir Páll Gíslason framkvæmdastjóri Ocean Excellence, s. 664 7000.