Íslenski sjávarklasinn og veitingastaðurinn Bergsson RE standa fyrir þjóðhátíðarstemningu í Húsi sjávarklasans fram yfir verslunarmannahelgi en þar hefur nú verið reist ósvikið þjóðhátíðartjald. Til stendur að boðið verði upp á vestmannaeyskar kræsingar í tjaldinu á næstu vikum, en það stendur við hlið veitingastaðarins Bergsson RE og er opið gestum og gangandi.
Með þessu vilja fyrirtæki í Húsi sjávarklasans og Bergsson RE kynna Reykvíkingum þjóðhátíð, vestmannaeyska menningu og ekki síst skapa athvarf fyrir brottflutta Vestmannaeyinga í Reykjavík.
„Við höfum reynt að fanga þessa Eyjastemningu hér í tjaldinu eins og fjölskyldur í Vestmannaeyjum hafa gert í öll þessi ár. Hér eru myndir sem sýna hátíðleikann við setninguna á föstudegi Þjóðhátíðar en fyrir marga er það einn af hápunktunum. Við bjóðum alla velkomna að kíkja við og njóta hvort sem það er Eyjafólk sem er fast á Norðureyjunni eða fólk af fasta landinu sem hefur ekki komið á Þjóðhátíð.“ segir Emilía Borgþórsdóttir hönnunarstjóri sýningarinnar.
Föstudaginn 17. júlí kl. 11:30 mun Þjóðhátíðarnefnd ÍBV kynna dagskrá hátíðarinnar í tjaldinu. Tjaldið verður síðan opið gestum alla virka daga frá klukkan 11:00 til 18:00 og verður opið alla virka daga þangað til Þjóðhátíð lýkur þann 3. ágúst næstkomandi.